Fylkir og Landsspítalinn í samstarf

Fylkir og Sérhæfð endurhæfingargeðdeild hófu samstarf á síðasta ári sem hefur gengið mjög vel.  Fulltrúar Fylkis og Landsspítalans hittust á dögunum og fóru yfir stöðuna og þá var ákveðið að halda verkefninu áfram. Verkefnið snýr að því að Landspítalinn hefur fengið inni í íþróttasalnum einu sinni í viku fyrir hreyfingu skjólstæðinga sinna.

Sérhæfð endurhæfingargeðdeild er 10-11 rúma legudeild sem sérhæfir sig í meðferð ungmenna með geðrofssjúkdóma og fíknivanda. 

Meðalaldur sjúklinga á deildinni er 24 ár og er ríkuleg áhersla lögð á að styðja bæði við einstaklinginn og nánustu aðstandendur í endurhæfingunni.
Allir sjúklingarnir eru greindir með einhvers konar geðrofssjúkdóm og flestir þeirra með fíknivanda.
Meðallengd innlagna er u.þ.b. 3 mánuðir og eru markmiðin að auka getu, færni og innsæi einstaklinganna og endurhæfa þá aftur út í samfélagið.

Vikulegur aðgangur að Fylkishöllinni hefur reynst sjúklingum á Sérhæfðri Endurhæfingargeðdeild ómetanlegur. Athafnir sem innihalda góða hreyfingu í félagslegu umhverfi er stór partur af endurhæfingu þeirra sem glíma við erfið veikindi. Aðgangur að umhverfi líkt og Fylkishöllin býður upp á gefur gott svigrúm til þess að stuðla að einstaklingsmiðaðri endurhæfingu. Fylkishöllin bíður upp á marga valmöguleika þegar kemur að hreyfingu svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, allt frá badminton til fótbolta. Sjúklingar og starfsfólk ákveða í sameiningu hvers konar íþrótt eða virkni er stefnt að hverju sinni í Fylkishöll. Starfsfólk tekur ekki síður þátt í því sem fer fram sem reynist í leiðinni hvetjandi fyrir sjúklingana. Sjúklingarnir á deildinni eru mislangt komnir í sínum bata, á meðan fyrir suma nægir að sitja til hliðar og horfa á það sem fer fram eru aðrir sem geta tekið virkan þátt í þá klukkustund sem við fáum salinn. Fylkishöllin er ein af vinsælustu liðum endurhæfingarinnar sem boðið er upp á.
Starfsfólk Íþróttafélagsins Fylkis hefur reynst okkur sérstaklega viðmótsþýtt,hjálplegt og þægilegt. Íþróttafélagið Fylkir á skilið þakkir frá Landspítalanum og Sérhæfðri endurhæfingargeðdeild. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Landssp2

Hér má sjá þau Styrkár Hallsson ráðgjafa deildarinnar, Hörð Guðjónsson Íþróttafulltrúa Fylkis og Margréti Möndu deildarstjóra