Saga félagsins

- frá sjónarhorni Arnar Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra félagsins. 

Eftirfarandi grein skrifaði Örn Hafsteinsson, framkvæmdastjóri í blað Rotary í Árbæ. Þessi grein lýsir sögu félagsins frá sjónarhorni Arnar.

Barna- og unglingastarf í Fylki.

Þegar til mín var leitað og ég beðinn um að skrifa grein um barna- og unglingastarfið hjá Fylki tók ég því vel og taldi ekki tiltökumál. 

En annað hefur komið á daginn. Þegar maður fer að velta þessu fyrir sér þá er þetta ekki svona lítið mál. Hjá íþróttafélagi eins og Fylki er barna- og unglingastarf félagsins samofið sögu þess. 

Það má til sanns vegar færa að frá stofnun félagsins hafi barna- og unglingastarf verið þungamiðjan í starfi Fylkis og með því að gera því góð skil væri ég að takast á hendur að skrifa sögu félagsins. Góðir menn og mér fremri í þeim efnum hafa tekið að sér að skrifa sögu Fylkis og er það starf nú í fullum gangi. 

Ég hef í huga að láta hugann reika, fara aftur og fram í tíma og segja frá Fylki eins og ég sé félagið sem þátttakandi frá stofnun til þessa dags. Þá langar mig líka að geta þeirrar aðstöðu sem Fylkir hafði á hverjum tíma og áhrif hennar á félagsstarfið. 

Í upphafi

Fylkir var stofnaður 28. maí 1967 og var kallað Knattspyrnufélag Seláss og Árbæjar fyrstu 3 árin. Ég kýs að nota Fylkisnafnið frá byrjun til að forðast misskilning. 

Ég man það svo vel þegar ég tæplega 10 ára gamall stóð í langri röð drengja fyrir utan þvottahússdyrnar hjá Magga Óla og beið þess að vera innritaður í félagið. Ég minnist þess ekki að stelpur hafi verið í röðinni en á þessum árum tíðkaðist það lítt að stelpur væru í fótbolta. Þær sem það gerðu voru kallaðar stelpustrákar og áttu sér varla viðreisnar von. 

Þetta var hugarfar þess tíma og mæður stelpnanna höfðu áhyggjur af marblettum og of breiðum fótleggjum! 

Nokkrar hugrakkar voru þó til og æfðu þær með okkur strákunum en spiluðu ekki með okkur í leikjum. Nú er öldin önnur og augu flestra hafa opnast fyrir þeirri staðeynd að stelpur geta flest það sem strákar geta og sumt jafnvel betur. Í dag taka stúlkur þátt í knattspyrnumótum á vegum Fylkis í öllum yngri flokkum kvenna, og ekki er þess langt að bíða að meistarflokkur kvenna verði endurvakinn. 

Líklega tveimur árum eftir stofnun Fylkis hófust æfingar í handbolta á vegum félagsins í litlum sal undir gömlu stúkunni við Laugardalsvöllinn og í Hálogalandi. Alla tíð síðan hefur fyllsta jafnréttis kynjanna verið gætt, en erfiðlega hefur gengið að festa kvennaknattspyrnuna í sessi innan Fylkis. Held ég þó að það hafi stafað af aðstöðuleysi fremur en misrétti. 

Stúlkurnar náðu betri árangri í keppni en við strákarnir. T.d er fyrsti titillinn sem Fylkir státar af Reykjavíkurmeistaratitill í 3. flokki kvenna í handknattleik árið 1971. Fyrstu meistarar Fylkis í knattspyrnu voru Haustmótsmeistarar 5. flokks C karla árið 1974. 

Fyrsti völlurinn

Skipulagt starf á vegum félagsins fór rólega af stað fyrstu árin. Það voru bara æfingar á sumrin því engin aðstaða var til æfinga eða leikfimikennslu yfir vetrartímann í hverfinu. Í rauninni má segja að Fylkir hafi séð um íþróttakennslu barna og unglinga fyrstu árin í Árbæjarhverfi eða þar til salurinn við Árbæjarskóla var tekinn í notkun. 

Fyrsti knattspyrnuvöllurinn sem Fylkir fékk til æfinga var sparkvöllur neðarlega við Rofabæ. Ekki var hann beysinn, hallaði mikið til suðurs, mjög ósléttur og man ég ekki betur en að símastaur hafi verið á vellinum fyrsta sumarið. Allt fór þetta þó á besta veg, staurinn fjarlægður og völlurinn lagaður en hann hallaði alla tíð og gerir enn. 

Fyrstu árin lék Fylkir heimaleiki sína á Háskólavellinum sem í dag er bílastæði nemenda Háskólans. Það var því um langan veg að fara til leikja og strætó gekk á klukkustundar fresti. 

Á þessum árum heyrði það til undantekninga að foreldrar fylgdust með börnum sínum í leikjum eða öðru starfi á vegum Fylkis. Þó var það alltaf einn og einn sem mætti og sat hann þá oftast uppi með heilt fótboltalið þegar haldið var heim eftir leiki. Ef heppnin var með í för tók þjálfarinn helminginn af liðinu í sinn bíl. 

Frægir fótboltakappar

Fyrstu árin voru það áhugasamir sjálfboðaliðar sem þjálfuðu flokkana, menn eins og Teddi Óskars, Viðar í Glæsibænum og Sævar heitinn Sigurðsson sem lengi var einn aðaldómari Fylkis. Svo man ég eftir frægum köppum sem tóku eina og eina æfingu og var Þórólfur Beck líklega sá frægasti, nafntoguð hetja og fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu. 

Ekki þarf að hafa mörg orð um árangurinn á þessum árum, við töpuðum flestum leikjunum stórt og tölur eins og 18 – 1 eru mér enn í fersku minni. Leikskipulagið var líka allt annað en í dag þar sem sóknarmenn voru sóknarmenn og varnarmenn voru varnarmenn. Ekkert miðjuþóf í þá daga. 

Með tilkomu íþróttahúss Árbæjarskóla gjörbreyttist starf Fylkis. Tekin var upp deildaskipting og knattspyrnu- og handknattleiksdeild stofnaðar formlega í mars 1972. Til gamans má geta þess að fyrsti stjórnarfundur handknattleikdeildar Fylkis fór fram í búningsklefa íþróttahúss Árbæjarskóla á meðan þar fóru fram æfingar. 

Í dag þykir mörgum íþróttasalurinn í Árbæjarskóla ekki boðlegur til æfinga en fyrir rúmum 30 árum skipti hann sköpum fyrir íþróttafélag sem enn var að slíta barnsskónum og án efa varð hann til þess að starf félagsins lagðist ekki af. 

Fylkir náði prýðilegum árangri í handknattleik á þessum árum en smæð æfingasalarins háði greinilega þegar út í leiki var komið. Brugðið var á það ráð að láta elstu flokka sækja æfingar í önnur íþróttahús s.s Fellaskóla í Breiðholti og Laugardalshöll. Hafði það greinilega mikið að segja því ekki leið á löngu þar til þeir flokkar voru farnir að blanda sér toppbáráttuna á þeim mótum sem þeir tóku þátt í. 

Frábærir forystumenn

Það varð Fylki til happs að á þessum bernskuárum völdust menn til forystu sem höfðu óbilandi trú á félaginu og höfðu sumir verið þátttakendur í starfi annarra íþróttafélaga áður en þeir fluttu í Árbæinn. Ekki vantaði börnin því það voru barnafjölskyldur sem byggðu Árbæinn en það skorti fleiri áhugasama foreldra til að vinna með og fyrir börnin. 

Fylkir fór ekki varhluta af skákbylgjunni sem hófst í kjölfar ,,skákeinvígis aldarinnar“ sem var háð í Reykjavík 1972 milli Spasskýs og Fischers. Veturinn 1974 voru áhugsamir skákmenn í hverfinu fengnir til að stýra vikulegum æfingum undir merkjum Fylkis og fóru þær fram í Árbæjarskóla. Til urðu skáksveitir Fylkis og telfdu þær fyrir hönd félagsins í ein tvö ár en þá lagðist þetta starf af . 

Árið 1973 var malarvöllurinn tekinn í notkun og var Fylkir þá eina Reykjavíkurfélagið sem átti sinn eigin heimavöll. Malarvöllurinn þótti og þykir enn afburða góður. Ekki voru neinir búningsklefar við völlinn fyrstu árin og þurfti að notast við búningsklefa íþróttahúss Árbæjarskóla. 

Fylkir átti sinn eiginn völl en enga fundar- eða félagsaðstöðu. Þetta gátu Fylkismenn ekki sætt sig við og reistu félagsheimili við völlinn. Var það gert að öllu leyti í sjálfboðavinnu og hver tími færður til bókar og eins hvað var gert hverju sinni. 

Það fóru hvorki fleiri né færri en fjögur þúsund og þrjú hundruð vinnustundir á tæpum fjórum mánuðum í byggingu hússins og var húsið vígt með viðhöfn 10. janúar 1976. Fram að því höfðu fundir stjórnar- og félagsmanna verið haldnir í heimahúsum, búningsklefum og sumarhúsum svo fátt eitt sé nefnt. 

Byggingar

Ekki veit ég hvort stofnfundur Fimleikadeildar Fylkis 12. janúar 1976 hafi verið haldinn í nýja félagsheimilinu en þykir það líklegt. Æfingar hinnar nýstofnuðu deildar hófust strax í íþróttahúsi Árbæjarskóla með áhöldum sem deildin fékk að gjöf eða láni frá velunnurum félagsins. 

Reykjavíkurborg hóf byggingu búningsklefahússins 1977 og var það tekið í notkun 1978. Í húsinu voru auk tveggja búningklefa, skrifstofu- og félagsaðstaða. 

Þrátt fyrir aðstöðuleysi náði Fylkir ótrúlegum árangri í boltagreinunum tveimur. Árið 1977 varð meistaraflokkur karla í knattspyrnu Íslandsmeistari þriðju deildar og vann sér rétt til keppni í annarri deild. Vorið 1978 varð meistaraflokkur karla í handknattleik Íslandsmeistari annarrar deildar og vann með því sæti á meðal þeirra bestu í efstu deild. 

Næstu ár dunduðum við okkur við það að fara niður og upp um deild og náðum ekki að festa rætur í efri deildum. 

Fylkir fékk landið fyrir starfsemi félagsins formlega afhent 1982. Eftir talsverðar þreifingar við Reykjavíkurborg um byggingu íþróttahúss voru þau áform lögð til hliðar um hríð. 

Um miðjan níunda áratuginn hófst undirbúningur að gerð grasvalla hjá Fylki og var sá fyrsti af þremur tekinn í notkun sumarið 1987, þó ekki að fullu vegna húsa sem enn stóðu á landi okkar Fylkismanna og Reykjavíkurborg átti eftir að fjarlægja. Grasvallagerðinni lauk ekki fyrr en 1991. 

Fyrsta skóflustungan að íþróttahúsinu var tekin á tuttugu ára afmæli félagsins en lítið gerðist síðan opinberlega í þeim málum fyrr en 1992 þegar gengið var til samninga við Ístak um bygginu íþróttahúss Fylkis. 

Foreldrastarfið

Skipulagt foreldrastarf í Fylki hefst um 1985 með stofnun unglingaráðs knattspyrnu-deildar og hefur það sýnt sig að árangur, hvort heldur á velli eða á félagslegum grunni, helst í hendur við foreldrastarfið. Eftir því sem foreldrarnir sýna starfinu og þar með börnunum meiri áhuga hefur þátttakendum fjölgað og betri árangur náðst. 

Árangur knattspyrnudeildar eftir að skipulagt foreldrastarf hófst er um margt einstakur. Yngri flokkar félagsins hafa sópað til sín verðlaunum og eru með þeim fjölmennari á landinu. Vel hefur tekist að halda utan um árganga og tiltölulega fáir heltast úr lestinni frá sjöunda flokki og fram til unglingsára. 

Til þess er tekið hversu margir uppaldir Fylkismenn eru leikmenn í meistaraflokki Fylkis sem náði besta árangri félagsins í flokkaíþróttum sl. sumar. Fylkir tekur nú þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögunni og er ekki að efa að þar eiga foreldrarnir stóran hlut að máli. 

Árið 1986 hóf knattspyrnudeildin rekstur knattspyrnuskóla á sumrin og hefur hann verið starfræktur nánast með óbreyttu sniði síðan. Þeir eru ófáir leikmenn meistaraflokks í dag sem hófu sína knattspyrnuiðkun í knattspyrnuskóla Fylkis. 

Ef litið er yfir starf félagsins frá stofnun sjáum við, fyrir utan ákveðna toppa fyrstu árin, greinileg merki um mikilvægi góðrar aðstöðu og foreldrastarfs. Á sama tíma og foreldrastarf hefst með skipulögðum hætti hjá knattspyrnudeild og grasvellirnir verða til dregst starf handknattleiksdeildar saman og er nánast að engu orðið um 1990, því þar skorti hvoru tveggja, aðstöðu og foreldrastarf.. 

Handbolti og fimleikar

Aðstaða handknattleiks hafði ekkert breyst frá því að íþróttahús Árbæjarskóla var tekið í notkun. Eftir að deildunum fjölgaði fengu þær eðlilega færri tíma í íþróttahúsinu. Kennslu var yfirleitt ekki lokið fyrr en klukkan 18.00 og gátu æfingar ekki hafist fyrr. Stjórn handknattleiksdeildar leysti þann vanda með tímum í íþróttahúsum í öðrum hverfum og jafnvel öðrum bæjarfélögum. 

Þetta varð til þess að þjálfarar deildarinnar urðu að þvælast með bolta, keilur og annan búnað í bílum sínum því ekki hafði Fylkir tök á að eiga slíkan búnað tiltækan á hverjum stað. 

Þetta gat ekki gengið, börnin voru á þvælingi með strætó um allar trissur, jafnvel eftir leyfilegan útivistartíma. Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær þetta kæmi niður á starfi deildarinnar og svo fór að lokum. Foreldrar sýndu ótrúlega þolinmæði á þessum árum en á endanum gáfust þeir upp. 

Fimleikadeildin heldur ótrauð sínu striki en starf deildarinnar dreifist á fáa stjórnarmenn og þjálfara. Erfiðlega gengur að ná endum saman eins og hjá hinum deildunum. Hjá fimleikadeildinni hefur frá stofnun megin áhersla verið lögð á barna- og unglingastarf en síður á keppni. Það er ekki fyrr en nú hin síðari ár að markvisst er unnið að þjálfun afreksfólks í fimleikum hjá Fylki. Deildin hefur verið mjög vel rekin sl. ár, staðið í skilum og gott betur enda veitir ekki af vegna stöðugrar endurnýjunar áhalda. 

Siglingar, karate og blak

Siglingadeild Fylkis var stofnuð um svipað leyti og fimleikadeildin, aðeins síðar minnir mig, og hafði hún aðstöðu við Rauðavatn. Gekk rekstur deildarinnar með ágætum um nokkurt skeið, keyptur var búnaður til siglinga sem og geymsluskúr við vatnið. Ekki náði siglingadeildin að festa rætur og lagðist starf hennar að mestu niður við sviplegt fráfall stofnanda deildarinnar og helstu driffjöður, Hafþórs Óskarssonar. 

Skipulagðar æfingar í karate hófust haustið 1987 og var æft í félagsmiðstöðinni Árseli. Ekki verður annað sagt en að rekstur karatedeildar hafi farið hljóðlega og margur Fylkismaðurinn hafði ekki hugmynd um þessa starfsemi félagsins lengi vel. 

Formleg stofnun karatedeildar Fylkis var 1996 en deildin hafði starfað, líkt og blakdeildin, í skjóli aðalstjórnar um nokkurt skeið. Hægur en greinilegur stígandi hefur verið í barna- og unglingastarfi deildarinnar. Iðkendum fjölgar jafnt og þétt og hefur árangur þeirra á mótum verið mjög góður. Aðalþjálfari deildarinnar síðastliðin ár er Halldór Svavarsson og er hann jafnframt landsliðsþjálfari og margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari. 

Starfsemi blakdeildar Fylkis hófst haustið 1991 og æfði hún í hinum ýmsu íþróttahúsum í Reykjavík fyrstu tvö árin. Einu formlegu afskipti aðalstjórnar Fylkis af starfsemi deildarinnar voru á aðalfundum, og barna- og unglingastarf innan deildarinnar var ekkert fyrstu árin. 

Blakdeild Fylkis var stofnuð formlega í desember 1993 og eftir það fóru æfingar hennar fram í íþróttahúsum Selás- og Ártúnsskóla. Settur var á fót unglingaflokkur kvenna og talsvert kynningarátak fór fram í hverfinu. Rekstur barna- og unglingaflokka gekk alla tíð illa og gáfust stjórnarmenn blakdeildar upp að lokum. Í dag taka tveir flokkar þátt í mótum, meistaraflokkur kvenna og öldungaflokkur. 

Keila og körfubolti

Ein er sú deild í Fylki sem sjaldan ber á góma en það er keiludeildin. Ekkert barna- og unglingastarf fer fram í deildinni, en hana skipa aðeins um tugur manna sem leikur keilu í nafni félgsins. 

Æfingar í körfuknattleik hjá Fylki hófust í ársbyrjun 1993 en formlega var deildin stofnuð 1. febrúar 1994. Óhætt er að segja að starf deildarinnar hafi lofað góðu í byrjun. Áhugasamir foreldrar sátu í stjórn deildarinnar og iðkendum fjölgaði jafnt og þétt. Körfuknattleik var gert hátt undir höfði í fjölmiðlum og mikil vakning var hér á landi. 

Því miður lagðist starf körfuknattleiksdeildar af árið 1998 og er helst um að kenna að ekki var hægt að mynda stjórn til að reka deildina. Síðasta starfsár deildarinar var erfitt, mikill kostnaður og fáar hendur til að vinna verkin. 

Fylkishöllin, framkvæmdir og framtíðin

Í september 1995 var Fylkishöllin tekin í notkun og frá þeim tíma hefur aðstaða til æfinga og keppni batnað til mikilla muna og er aðstaða fyrir innanhússíþróttir engu síðri en hjá öðrum íþróttafélögum, jafnvel betri. 

En betur má ef duga skal því enn vantar td. æfingagrasvelli fyrir knattspyrnuna og áhorfendaaðstaða er ekki komin í það horf sem nauðsynlegt er fyrir félag í efstu deild. Stöðugt er unnið að því bæta aðstöðuna og auka nýtingu hússins m.a með því að leigja tónlistarskóla og líkamsræktarstöð hluta efri hæðar þess. 

Hafnar eru framkvæmdir við gerð áhorfendapalla ( stúku ) við grasvöllinn og á því verki að vera lokið í sumar. Sífellt eru gerðar meiri kröfur til íþróttafélaga um aðstöðu og verðum við Fylkismenn að gæta að því að sitja ekki eftir með þeim skaða sem það getur valdið. 

Gæfan er sterkur grunnur

Með tilkomu Fylkishallar áttu flestir von á því að innanhússgreinarnar myndu styrkjast og iðkendum fjölga. Það hefur orðið raunin hjá fimleika- og karatedeild. Nú er fimleikadeildin orðin önnur stærsta deildin á eftir knattspyrnunni og komast færri að en vilja. Karatedeildin hefur eflst líka en þó ekki í sama mæli. 

Handknattleiksdeildin blés í herlúðra þegar loks hafði risið íþróttahús og fyrsta veturinn í Fylkishöll var keppt í nær öllum flokkum karla og kvenna. En skaðinn var skeður. Eftir mögur ár vantaði alveg grunninn í starfið. Meistaraflokkur kvenna var lagður niður eftir tvo erfiða vetur og mjög hafði dregið af yngri flokka starfinu. 

Stjórn handknattleiksdeildar neitaði að gefast upp og lagði allt kapp á að koma meistaraflokki karla í efstu deild. Með því taldi stjórnin að áhugi barna og unglinga yrði aftur vakinn en það fór á annan veg. Eftir erfitt tímabil sem endaði með falli aftur í aðra deild sat stjórnin eftir með sárt ennið og skuldir, algjörlega rúin áhuga á frekari stjórnarsetu. Þegar svo er komið virðast öll sund lokuð og menn gefast loks upp. En aðeins um sinn. 

Eftir þrjátíu og fjögur ár blasir sú einfalda staðreynd við að án barna og unglinga er ekki hægt að reka íþróttafélag, án boðlegrar aðstöðu má íþróttafélag sín lítils í samkeppninni um börn og unglinga og síðast en ekki síst að án þátttöku foreldra í starfi er ekki hægt að reka íþróttafélag. 

Gæfa þessa félags hefur verið að það er byggt upp neðan frá, á sterkum grunni sem eru börnin og unglingarnir í hverfinu. Ef við víkjum frá því myndast brestir í stoðir Fylkis. 

Ef við berum gæfu til að halda hlutdeild okkar í tómstundum barna og unglinga og fáum foreldra til að taka þátt í uppbyggjandi forvarnarstarfi verður framtíð Fylkis björt.

Villa
  • Error loading feed data