Starfsemi

Fimleikar eru ein besta íþróttagreinin fyrir alhliða þjálfun barna og unglinga enda reynir þar á kraft, fimi, jafnvægi og samhæfingu hreyfinga. Fylkir hefur átt mjög sterka keppnishópa í áhaldafimleikum sem sýnt hafa frábæran árangur á mótum og nú á félagið þrjá fulltrúa í unglingalandsliðshópi og einn í landsliðshópi fullorðinna. Með nýju húsnæði hefur framboð fimleikadeildar aukist mjög og er nú boðið upp á fjölbreytt námskeið auk hefðbundinna áhalda- og hópfimleika.

Áhaldafimleikar eru keppnisíþrótt sem skiptist í sex þrep og frjálsar æfingar. Keppt er í fjórum greinum í kvennaflokki og sex í karlaflokki. Iðkendur hefja æfingar í 6. þrepi og þurfa að ljúka tilskyldum æfingum í hverju þrepi áður en þeir færast upp um þrep. Þegar 1. þrepi hefur verið náð taka við frjálsar æfingar. Í áhaldafimleikum keppa konur í stökki, tvíslá, slá og gólfæfingum en karlar keppa í gólfæfingum, bogahesti, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá.

Hópfimleikar kallast öðru nafni trompfimleikar. Í hópfimleikum er keppt í þremur greinum, dansi, trampólíni og dýnuæfingum og í hverjum keppnishópi eru 6-10 keppendur. Keppt er í þremur flokkum, karlaflokki, kvennaflokki og blönduðum flokki karla og kvenna. Einstaklingar geta einnig keppt í hefðbundnum hópfimleikagreinum og kallast það þá almennir fimleikar.

Fullorðinsfimleikar eru þrek, teygjur og grunnæfingar áhaldafimleika fyrir 18 ára og eldri. Fimleikar eru mjög góð alhliða þjálfun sem allir geta tekið þátt í.

Fimleikaskóli 3-5 ára er íþróttaskóli fyrir yngstu börnin sem eru að taka sín fyrstu skref í íþróttum. Íþróttakennari leiðbeinir börnunum í gegnum skemmtilega leiki og þrautir, með eða án þátttöku foreldra. Skólinn er góður undirbúningur fyrir fimleikana. Stubbaleikfimin er kennd í Fylkisseli.

Parkour er alþjóðleg jaðaríþrótt. Hægt er að lýsa parkour sem tegund af hreyfilist með þann tilgang að komast á frumlegan hátt á milli staða í borgarumhverfi. Iðkendur parkour nota hindranir borgarinnar - byggingar, veggi eða annað - á frumlegan og hugmyndaríkan hátt til þess að komast leiðar sinnar. Þjálfun í parkour byggist því mikið á þreki, teygjum og stökkum og tengist mjög þjálfun í fimleikum.

Fimleikadeildin býður einnig upp á þrek, teygjur og grunnæfingar áhaldafimleika fyrir knattspyrnudeild eða aðrar deildir sem óska eftir að fá góða alhliða þjálfun til viðbótar við sína eigin grunnþjálfun.

Lýsing hópa

Stundaskrá

Æfingargjöld

Frekari upplýsingar eru veittar í This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.