Thelma á landsliðsæfingu !

Thelma Lóa Hermannsdóttir leikmaður Fylkis hefur verið valin á úrtaksæfingar U17 ára landsliðs kvenna. Æfingarnar fara fram næstkomandi helgi, 20.-22. nóvember.

Við Fylkismenn erum stoltir af okkar fulltrúa og óskum Thelmu góðs gengis á æfingunum.
Thelma er ekki eini fulltrúi kvennaknattspyrnunnar í Fylki sem hefur verið boðaður á æfingar undanfarið en eins og áður hefur komið fram æfðu þær Brigita Morkute og Þóra Kristín Hreggviðsdóttir með úrtakshópi stúlkna fæddum árið 2001 fyrir stuttu síðan.

Áfram Fylkir og áfram stelpur!

 

Fylkir framlengir við þrjá unga leikmenn

Fylkir hefur framlengt samninga við þrjá leikmenn meistaraflokks karla en þetta eru þeir Ragnar Bragi Sveinsson,  Daði Ólafsson og Orri Sveinn Stefánsson.

Ragnar Bragi er 21 árs sóknarmaður sem hefur leikið 42 leiki fyrir félagið í efstu deild og bikar og skorað fimm mörk. Ragnar Bragi er uppalinn Fylkismaður og lék sinn fyrsta deildarleik 15 ára árið 2010. Árið 2011 gekk hann til liðs við þýska liðið Kaisers­lautern en snéri heim í Fylki fyrir tímabilið 2014. Ragnar hefur leikið fimm leiki með U-19 ára landsliði Íslands og sjö leiki með U-17 ára landsliðinu og skorað í þeim tvö mörk.

Daði Ólafsson er 21 árs miðjumaður sem getur einnig leyst stöðu vinstri bakvarðar. Daði er uppalinn í Fylki og hefur leikið 22 leiki í deild og bikar fyrir félagið.

Orri Sveinn Stefánsson er 19 ára varnarmaður og er einnig uppalinn i félaginu. Á síðustu leiktíð lék Orri á láni hjá Huginn á Seyðisfirði sem tryggði sér sigur í 2.deild, þar spilaði hann 21 deildarleiki og skoraði 3 mörk. Orri á að baki 3 landsleiki með U-19 ára landsliði Íslands.

Knattspyrnudeild Fylkis lýsir yfir mikilli ánægju með að tryggja framtíð þessara ungu og efnilegu leikmanna.

1 MG 3307

Þóra og Brigitta á landsliðsæfingu

Úlfar Hinriksson hefur valið hóp stúlkna af Suður- og Vesturlandi fæddar 2001 til æfinga 30. október – 1. nóvember næstkomandi.  Í hópnum eru tvær Fylkisstelpur, þær Þóra Kristín Hreggviðsdóttir og Brigita Morkute.  Óskum við þeim til hamingju og góðs gengis.

 

Sitó í Fylki

Jose Enrique Seoane Vergara „Sitó“ hefur skrifað undir eins árs samning við Fylki. Sitó sem er 26 ára, fæddur á Spáni og hefur spilað með liðum bæði á Spáni og í Bandaríkjunum. S.l. kepnnistímabil spilaði Sitó með ÍBV í Pepsi-deildinni og skoraði sex mörk í ellefu leikjum. Stjórn knattspyrnudeildar Fylkis lýsir yfir mikilli ánægju að Sitó sé genginn til liðs við Fylki.

Stelpurnar stóðu sig vel í sumar

Það er óhætt að segja að fótboltastelpurnar í 5. og 4. Flokki kvenna hafi staðið sig frábæralega í sumar.  Í 5.flokki voru um 35 stelpur að æfa í sumar og var flokkurinn með 4 lið.  Mikill metnaður og áhugi einkenndi þennan hóp og tóku þær allar miklum framförum. Helsti árangur flokksins í sumar var að í Reykjavíkurmótinu vann C-liðið, B-liðið varð í 3.sæti og A-liðið  í 2.sæti.

Í Íslandsmótinu varð D-liðið Íslandsmeistari og A-liðið komst í úrslitaleik bæði á Pæjumótinu í Eyjum og á Símamótinu.   Anna Kolbrún Ólafsdóttir, miðjumaður í A- liðinu var svo valin efnilegasti leikmaður Pæjumótsins í eyjum. Þar voru tæplega 700 þátttakendur svo heiðurinn er mikill og eru Fylkismenn stoltir af því að eiga efnilegasta leikmann 5.flokks í sínum röðum þetta árið.

Keppnistímabilið fór rólega af stað hjá stúlkunum í 4.flokki kvenna en bæði A & B-lið lentu í 4.sæti í Reykjavíkurmótinu. Stúlkurnar voru staðráðnar í því að gera enn betur í Íslandsmótinu og fór það svo að bæði lið höfnuðu í 2.sæti í sínum riðli sem gaf þáttökurétt í sjálfri úrslitakeppninni. A-liðið lenti þar í 2.sæti í sínum riðli í úrslitakeppninni og B-liðið lenti í 3.sæti.

Árangurinn og framfarirnar voru ekki það eina sem stóð upp úr þetta árið því eldra árið fór í ógleymanlega keppnisferð til Finnlands og tóku þar þátt í Helsinki cup. Ferðin heppnaðist með eindæmum vel og ljóst þykir að stelpurnar hafi skapað þar minningar sem munu fylgja þeim alla ævi. Yngra árið ásamt liðsstyrk úr 5.flokki kvenna ákvað hinsvegar að skella sér í Laugardalinn og taka þátt í ReyCup þetta árið. Stemmningin í hópnum var gífurlega góð og gerðu þær sér lítið fyrir og sigruðu mótið örugglega í keppni B-liða.