Klárar Fylkisstelpur :)

Fylkisstelpurnar Anna Kolbrún Ólafsdóttir, Katrín Vala Zinovieva og Bryndís Arna Níelsdóttir sigruðu í keppninni um klárustu knattspyrnustelpurnar á Rás 2.
 

Keppninni lauk á dögunum en undanfarnar tvær vikur hafa þrjár fótboltastelpur úr 4. flokki allra liða í Pepsídeild kvenna mætt í heimsókn til Dodda, Sölku Sólar og Sóla Hólm í þáttinn Sumarmorgnar á Rás 2 og tekið þátt. Keppnin fólst í að stelpurnar héldu bolta á lofti og kepptu svo  í fótboltaspurningakeppni.

Bryndís Arna hélt boltanum á lofti hvorki meira né minna en 1349 sinnum og sló þar met sem KR-stúlkan Alma Mathiesen átti fyrir, en hún náði að halda boltanum 1077 sinnum. Í spurningakeppninni svöruðu Fylkisstelpurnar 9 spurningum rétt og sigruðu þar með keppnina með samtals 224 stig. Í öðru sæti voru KR-stelpur með 217 stig og í þriðja sæti lentu FH-stelpur með 174 stig.

Þess má geta að Bryndís Arna setti persónulegt met í keppninni en fram að þessu var metið hennar í að halda bolta rúmlega 800 sinnum á lofti. Hún sló það met svo sannarlega, því eins og áður sagði náði hún að halda honum á lofti 1349 sinnum.

Sigurliðið mætti í heimsókn á RÚV, Efstaleiti í dag og fékk landsliðstreyjur frá KSÍ. Til hamingju Fylkisstelpur!