KÆRU STUÐNINGSMENN

Kæra stuðningsfólk Fylkis

Framundan eru viðburðaríkar vikur í fótboltanum. Nú styttist í að fyrstu leikir í Íslandsmótinu hefjist hjá bæði meistaraflokki kvenna og karla. Eins og margir hafa tekið eftir hafa framkvæmdir við nýtt gervigras á aðalvöll Fylkis hafist og því spennandi tímar framundan hvað varðar aðstöðumál knattspyrnudeildar. Auk þessa hafa framkvæmdir við stúkuna okkar verið í gangi í vetur og ljóst að allt önnur og betri aðstaða mun bíða okkar í sumar.

Nú þegar hafa verið opnuð verðtilboð í undirvinnu og lögn gervigrass á völlinn og þegar þessi orð eru skrifuð hefur verið skrifað undir samning við Bjössa ehf. varðandi alla undirvinnu fyrir lögn gervigrassins auk þess sem yfirferð á tilboðum í gervigrasið er á lokametrunum.

Áætlað er að undirvinna fyrir graslögn taki nokkrar vikur og að henni ljúki fyrir 5. júní. Þá tekur við lögn gervigrass á völlinn. Sú vinna er að einhverju leyti háð veðri en áætlað er að þeirri vinnu ljúki í síðasta lagi í lok júní. Það er því ljóst að fyrstu heimaleikir félagsins verða ekki spilaðir á aðalvelli félagsins.

Áætlað er að fyrsti leikur meistaraflokks kvenna á nýju gervigrasi verði föstudaginn 13. júlí, en fram að því munu stelpurnar okkar spila heimaleiki sína á núverandi gervigrasvelli félagsins. En það er heimilt þar sem stelpurnar munu spila í Inkasso-deildinni í sumar.

Fyrsti leikur meistaraflokk karla á nýju gervigrasi er áætlaður mánudaginn 7. júlí, en fram að því munu heimaleikir strákanna okkar fara fram í Egilshöll. Þá hafa FHingar einnig samþykkt að víxla á heimaleikjum þannig að heimaleikur við FH spilast í seinni umferð á aðalvellinum.

Við viljum hvetja alla stuðningsmenn Fylkis að standa þétt við bakið á liðunum okkar og mæta á leiki félagsins, bæði á heimavelli sem og aðra leiki. Stuðningur okkar allra er liðunum mikilvægur.

Þá viljum við einnig hvetja alla til að styðja við bakið á félaginu með kaupum á árskortum. Sala á árskortum fer fram á heimasíðu Fylkis í gegnum Nóra skráningarkerfið: https://fylkir.felog.is/.

ÁFRAM FYLKIR

Fyrir hönd stjórnar knattspyrnudeildar Fylkis

Þorvarður L. Björgvinsson

Villa
  • Error loading feed data