Ólafur Stígsson: Maður stefnir aldrei á sjötta sæti

Af fotbolti.net
,,Ég held að þetta sé bara eðlilegt, við erum bara með þannig lið og hin liðin fyrir ofan okkur eru að styrkja sig meira en við og teljast því sterkari," sagði Ólafur Ingi Stígsson fyrirliði Fylkis í samtali við Fótbolta.net en hans mönnum er spáð 6. sæti í Landsbankadeild karla í sumar af sérfræðingum Fótbolta.net.

,,Maður stefnir samt aldrei á sjötta sæti, það er alveg klárt. Við ætlum að fara í alla leiki til að vinna þá. Við munum reyna að stríða þessum liðum, það gekk náttúrulega vel í fyrra þegar við vorum óheppnir að ná ekki þriðja sætinu. Við reynum að gera betur en í fyrra." Fylkir hefur fengið þá Allan Dyring, Ian Jeffs, Jóhann Þórhallsson og Viðar Guðjónsson til liðs við sig í vetur en missti frá sér Cristian Cristiansen, Albert Brynjar Ingason og Pál Einarsson frá síðustu leiktíð. ,,Þetta eru fínir leikmenn sem hafa komið til okkar, mjög fínir," sagði Ólafur. ,,Það er leiðinlegt að við misstum líka eitthvað en þannig er þetta bara. Við höfum aldrei náð að stilla upp okkar sterkasta liði í vetur því það eru alltaf einhver meiðsli svo til að byrja með býst ég við að þetta verði erfiðara en á sama tíma í fyrra." Ólafur hefur lítið spilað með Fylki á undirbúningstímabilinu en býst við að fara á fullt núna þegar liðið færi sig meira á gras en hann spilaði með liðinu í 7-0 stórsigri á Selfoss á laugardag. ,,Ég er allur að koma til, það er alltaf spurning um ástandið á mér en ég byrja allavega. Ég hef bara náð tveimur heilum leikjum í vetur," sagði hann. ,,Hnéð er orðið þannig að ég þarf að vera lítið á gervigrasi og flestallir leikirnir okkar eru á gervigrasi svo þetta er erfitt. Ég spilaði hálfleik gegn Selfoss og það gekk fínt." Fylkir hefur Landsbankadeildina á heimavelli í Árbænum þar sem þeir taka á móti Fram í fyrstu umferðinni. Ólafi lýst mjög vel á það. ,,Bara mjög vel, ég veit ekki alveg um vallaraðstæður en mér finnst ekki skipta neinu máli hvaða liði við byrjum á móti. Það er gaman að byrja á heimavelli. "

 

Villa
  • Error loading feed data