Síðustu mót í 6.flokki karla (Umfjöllun)

Síðustu helgar hafa farið fram mót í 6.flokki karla. Heimasíðann sló á þráðinn til Bjarka Más þjálfara og fékk smá innsýn inní hvernig starfið gengur.

 

6.flokkur Eldra ár
Lið 1 : 
Lið 1 spilaði í 2.deild núna eins og síðast. Á síðasta móti voru okkar menn hársbreidd frá því að falla en náðu að bjarga sér í síðasta leik gegn Haukum. Á þessu móti áttu þeir erfiða byrjun en liði sem féllu úr 1.deild Stjarnan og HK voru okkar fyrstu mótherjar. Mikil barátta skilaði einu stigi gegn Stjörnunni en hellingur af dauðafærum fór úrskeiðis og hefðu Fylkismenn hæglega getað unnið, en leikurinn endaði 12-12. HK liðið var hins vegar númeri of stórt og því tapaðist sá leikur 13-7. Á laugardeginum spiluðu Fylkir 1 svo við Þór, Selfoss og ÍR2 en það var vitað mál að alla vega einn leikur þyrfti að vinnast til að halda sætinu aftur. Strákarnir gerðu gott betur en það og unnu þá alla, Þór 10-6, Selfoss 10-7 og loks ÍR2 10-8 og því spilar Fylkir 1 í 1.deild á næsta móti.
Egill var frábær í markinu, Aron Breki stjórnaði sókninni vel. Arnald og Elías drógu vagninn í markaskorun. Nikulás og Þórður skoruðu mjög góð og mikilvæg mörk. Þórður var einnig frábær í vörninni. Ljóst er að liðið á mjög verðugt verkefni fyrir höndum í febrúar á næsta móti, því er um að gera að halda áfram að æfa vel og bæta sig.
Lið 2 : 
Lið 2 spilaði í 4.deild núna eins og síðast en okkar menn voru hundsvekktir að vinna ekki deildina sína á mótinu í október. Þar tapaðist úrslitaleikur við FH um sigur í riðlinum með því að andstæðingurinn skoraði úr vítakasti þegar um 5 sekúndur voru eftir. Strákarnir mættu grimmir til leiks og unnu fyrsta leikinn sinn gegn Víkingi með tveimur mörkum 12-8. Í næsta leik gerðu okkar menn jafntefli við HK5 í hörkuleik, 11-11. Það var vitað mál fyrir þennan leik að þetta yrði úrslitaleikur riðilsins og því urðu okkar menn að treysta á markatölu. Fylkir vann því Fram2 í næsta leik 13-7 og Selfoss 2 í lokaleiknum 18-10 og unnu því sannfærandi sigur á riðlinum með góðri markatölu, 56-36. Liðið spilar því í 3.deild á næsta móti og verður mjög fróðlegt að sjá hvernig liðinu vegnar þar en Fylkir 2 þarf að æfa mjög vel fram að því móti ef þeir ætla sér ekki beint niður aftur.
Viktor og Vilhjálmur Jóns lokuðu markinu á köflum og voru mjög góðir. Jóhann Birgir dró vagninn í sókninni ásamt Gauta. Benedikt og Vilhjálmur Baldvin góð mörk inn á milli og Sólon var góður bæði í vörn og sókn. 
Lið 3 : 
Í fyrsta leik Liðs 3 voru 4 leikmenn mættir til leiks vegna ákveðins misskilnings. Leikurinn var á móti sterkasta liði riðilsins en hann tapaðist "bara" 7-4 en okkar menn þurftu að leika manni færri allan leikinn og því voru úrslitin ágæt. Í kjölfarið fylgdi jafntefli gegn Fjölni 2 en sá leikurinn átti að vinnast því forysta okkar manna voru um 3 mörk þegar lítið var eftir. Nokkur klaufamistök í röð gerðu það að verkum að leikurinn endaði jafntefli, 9-9. Í næsta leik á móti Haukum 2 voru okkar menn ekki alveg mættir til leiks og tapaðist sá leikur 7-3 en okkar menn voru mjög óheppnir með dauðafæri í þeim leik þar sem markvörður Hauka varði mjög vel. Í lokaleik á móti Þrótti 1 náðu okkar strákar jafntefli og var jöfnunarmarkið skorað tveimur sekúndum fyrir leikslok og það gerði stórskyttan Jóhann, leikurinn endaði 14-14 í miklu markaleik. Liðið spilar aftur í sömu deild á næsta móti en með góðri æfingu og fullskipuðu liði gæti liðið átt möguleika á að komast upp.
Fyrir utan það að hafa mætt 4 í fyrsta leik voru næstu leikir flottir hjá liðinu. Jóhann og Jakob voru drjúgir í markaskorun. Elvar og Grímur voru eins og herforingjar í vörn. Stefán er alltaf að verða betri og betri. Elvar og Valdimar komu einnig sterkir inn þegar þurfti.

6.flokkur Yngra ár

 

Helgina 18-22 Nóvember spilaði yngra árið í KR-húsinu og endaði í 2 sæti í sínum riðli. Fyrsti leikur mótsins var við Víking en það var hörkuleikur allan tímann, staðan í hálfleik var 3-3 en leikurinn endaði svo með svekkjandi eins marks tapi 6-7. Hrikalega svekkjandi tap en þetta var úrslitaleikur riðilsins. Næstu leikir unnust nokkuð auðveldlega, 18-2 gegn Fjölni, 13-4 gegn Val, 14-3 gegn Aftureldingu og svo síðasti leikur mótsins var við Hauka og hann vannst 23-4. Fylkisliðið sýndi á þessu móti að það á ekki heima í þessum riðli og á því að vera ofar í styrkleika, en svekkjandi tap gegn Víking gerir það að verkum að liðið verður aftur í sama riðli á næsta móti. Það þýðir lítið að grenja yfir því og ætla strákarnir sér að halda áfram að bæta sig og koma svo á næsta mót og fara beint upp.

Í heildina litið stóðu strákarnir sig vel um helgina, Joshua stóð vaktina vel í markinu, Elvar og Valdimar voru öflugir í vörninni. Leó og Jóhann sáu um að draga sóknina áfram. Jakob skoraði flott mörk úr horninu og Bjarni var duglegur að leysa inn úr sínu horni og skora þaðan. Það sást að strákarnir höfðu tekið framför frá síðasta móti og vonandi verður áframhald af því.

Fylkir2 6.flokkur
Fylkir 2 á Eldra ári